Dapurlegt ástand, ráðamenn vaknið

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bera ábyrgð umfram aðra stjórnmálaflokka á þeirri stöðu sem nú er uppi í íslensku þjóðfélagi.  Eftirliti og reglum með viðskiptalífinu hefur verið ábótavant. Allt gert til að efla frelsið og leyfa frjálshyggjunni að „blómstra." Ráðamenn hafa skapað ógeðfellt viðskiptaumhverfi sem enginn ærlegur Íslendingur bað um. Ráðamönnum hefur tekist að einkavinavæða gróðann, þjóðnýta tapið og setja þjóðina í skuldahlekki af vangá.

Hverju er um að kenna að peningastuldur er enn löglegur á Íslandi undir formerkjum fjármálagerninga?  Allir sjá þjófnaðinn nema ráðamenn og strútarnir í fjármálaeftirlitinu. Siðleysið er algört. Ráðherrar þurfa að fara á námskeið í siðmennt til að skilja hugtakið ábyrgð. Tökum dæmi af viðskiptaráðherra, enginn sagði honum það sem hann hefði mátti vita. En hann tekur það sérstaklega fram að ekki hafi hann brotið nein lög. Það er nákvæmlega þetta hugafar sem er að fara með þjóðfélagið til fjandans. Það er til annarskonar ábyrgð en lagaleg, líka siðferðisleg og pólitísk.

Sjálfstæðisflokkurinn situr í skjóli Ingibjargar Sólrúnar. Fylgið er hrunið og verður nú Sjálfstæðisflokkurinn ásamt þjóðinni teymdur af „stálfrúnni” inn í Evrópubandalagið. Ingibjörg ætlaði að bæta siðferði í íslenskum stjórnmálum með samræðu stjórnmálum og margir bundu miklar vonir við hana. Þær vonir eru brostnar, hún hefur komið fram af hroka og yfirlæti gagnvart þjóðinni. Mikill fjöldi Samfylkingarfólks blöskrar dugleysi og framferði ráðherra flokksins og mun því segja skilið við hann. Ég held að framferði forustumanna ríkisstjórnarinnar á undanförnum vikum hafi í raun snúið mörgum í afstöðu sinni til EB. Margur sem var með er nú á móti. Hvernig hefur ESS samningurinn leikið þjóðina, frjálst flæði fjármagns. ,,Allt fyrir ekkert” er nú „nánast ekkert fyrir allt.”

Það sem á að hafa forgang núna er allt annað en innganga í EB. Stjórnmálamenn þurfa að skilja hvað er þjóðinni mikilvægt á þessum örlagatímum. Það hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur á milli stjórnmálamanna og almennings. Sárin þurfa að gróa og ekki er gæfulegt að ata þjóðinni á þessari stundu á forað EB umræðu. Verkefni heima fyrir eru ærin. Þeim verkefnum eiga stjórnmálamenn að sinna að trúmennsku, auðmýkt og af fullri einurð.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband